Facebook
Sequences | reykjavik | 6–15 October 2017
Days
Hours
Min
Sec
18.01.13 10:24

Fréttir á móðurmálinu – janúar 2013

  • Úr vinnustofu Gretars Reynissonar. [Mynd: Lilja Birgisdóttir]

Myndlistarhátíðin Sequences verður haldin í sjötta sinn 5. – 14. apríl víða um Reykjavík. Hátíðin stendur í tíu daga annað hvert ár og beinir sjónum að tímatengdri myndlist eins og gjörningum, hljóð- og myndbandsverkum. Árið 2006 var hún haldin í fyrsta sinn að frumkvæði Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar, Nýlistasafnsins, Kling & Bang gallerís, Gallerí Dvergs og Banananas. Stofnaðilar mynda enn bakland hátíðarinnar en hið síðast nefnda gallerí starfar ekki lengur. Sequences VI mun standa fyrir sýningum og viðburðum sem upphefja látleysi og dramatík hversdagsins. Þannig verður fótum spyrnt við holskeflu akademískrar rökhyggju yfir myndlistarvettvanginn með verkum sem endurspegla fegurðina i stöðugri óvissu daglegs lífs. Sýningarstjóri Sequences VI er Markús Þór Andrésson.

 

Heiðurslistamaður

Gretar Reynisson hefur verið útnefndur heiðurslistamaður Sequences VI og verður sett upp viðamikil sýning á verkum hans á Nýlistasafninu og í nágrenni. Gretar einsetti sér á sínum tíma að vinna óslitið að verkaröð sinni, Áratugur, hvern einasta dag fyrstu tíu ára aldarinnar og kemur afraksturinn nú fyrir sjónir almennings í fyrsta sinn. Eins og hugmyndin gefur til kynna bera verkin með sér yfirvegaða athugun á framvindu tímans en um leið þrengir daglegt líf sér inn í ferlið og tekur stundum stjórn. Þessi magnaða verkaröð endurspeglar sígildar vangaveltur um lífið og tilveruna sem og tilgang og eðli listsköpunar. Undirstaða hennar eru teikningar og ljósmyndir en hún samanstendur einnig af skúlptúrum, myndböndum og hvers konar uppsöfnuðu efni. Verkin eru hvort tveggja í senn sjálfstæðar einingar og heildræn skrásetning á óvenju löngum gjörningi Gretars sem stóð í heilan áratug og þeir sem umgengust listamanninn á þeim tíma fóru ekki varhluta af. Í anda hins stranga forms verkanna verður nú afrakstur tíu ára starfs kynntur á sýningu sem stendur aðeins í tíu daga. Af þessu tilefni verður gefin út sýningarskrá á vegum Útúrdúrs.

Sú venja hefur komist á að valinn sé heiðurslistamaður Sequences hverju sinni. Á síðustu hátíðum hafa Hannes Lárusson, Magnús Pálsson og Rúrí verið útnefnd.

 

Heiðurslistamaðurinn Gretar Reynisson á vinnustofu sinni. [Ljósmynd: Lilja Birgisdóttir]

Hliðardagskrá

Sú nýbreytni verður tekin upp á Sequences VI að bjóða listamönnum og stofnunum að skrá viðburði í opinni hliðardagskrá (Off-Venue) dagana sem hátíðin stendur. Sýningar, gjörningar og hvers konar uppákomur sem þykja falla undir hina tímatengdu áherslu hátíðarinnar verða kynntar sérstaklega í dagskrárhefti og á heimasíðu. Aðstandendur eru hvattir til að senda Sequences upplýsingar um hver, hvað, hvar og hvenær ásamt ljósmynd, merkt Off-Venue, fyrir 4. mars á sequences@sequences.is.

 

Hönnun og ný heimasíða

Hönnun kynningarefnis fyrir Sequences hefur vakið athygli í gegn um tíðina. Síðast sá Goddur um allt útlit og áður hafði Siggi Eggertsson unnið til Sjónlistaverðlauna fyrir sína hönnun. Hönnuður Sequences VI verður Arnar Freyr Guðmundsson og má sjá forsmekkinn á nýrri heimasíðu listahátíðarinnar, www.sequences.is. Þar munu á næstunni birtst fréttir af þeim listamönnum sem staðfest hafa þátttöku sína sem og drög að dagskrá.

 

Styrktaraðilar

Sequences VI hefur mætt jákvæðum viðbrögðum í undirbúningi hátíðarinnar í ár og hafa eftirtaldir aðilar lagt henni lið nú þegar: Reykjavíkurborg, Mennta- og menningarmálaráðuneytið, Norræna menningargáttinn, Norræni menningarsjóðurinn, Samfélagssjóður Landsbankans, Goethe-Institut og Hótel Holt.